Tjaldsvæði

Verðskrá sumarið 2021:

Verð fyrir 16 ára og eldri: 1.500 kr. (öryrkjar og aldraðir 1.300.-)
Verð fyrir skáta 16 ára og eldri: 800 kr.

Frítt fyrir börn undir 15 ára í fylgd með fjölskyldu
Rafmagn: 1000 kr
Innifalið í gjaldi er aðgangur að heitum sturtum, útigrillum, þjónustuhúsi og veiði í vatninu (á svæði 2).

Athugið að bílaumferð á tjaldsvæðinu er bönnuð eftir kl. 23.00

Verðið miðast við að greitt sé í þjónustumiðstöð áður en tjaldað er.

COVID 19 UPPLÝSINGAR
Takmarkað aðgengi verður að tjaldsvæðinu í sumar og miðast fjöldatölur þeim tölum frá sóttvarnarlækni á hverjum tíma. Gestir skulu fara eftir öllum þeim tilmælum sem tjaldvörður setur á hverjum tíma. Ekki verður leyfilegt að skilja eftir mat eða gaskúta á svæðinu. 

Vegna fjöldatakmarkanna skulu þeir sem dvelja eftir kl 15.00 á brottfarardegi greiða fyrir aðra nótt.

Síðan er um að gera að fara á Facebook síðu Úlfljótsvatns og sjá hvað er að gerast þessa stundina á Úlfljótsvatni.

Tjaldsvæðið er opið frá 1. júní 2021

Smelltu hér til að skoða nákvæma staðsetningu á korti ja.isf


Á Úlfljótsvatni hafa skátarnir komið upp glæsilegu tjaldsvæði sem almenningi býðst að nýta sér. Áhersla er lögð á fjölskyldufólk og að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu fyrir yngri kynslóðina. Mikið er um allskonar leiktækjum og aðstaðan sérstaklega góð. Sem dæmi um afþreyingu í boði er bátar, þrautabraut, klifurturn, fótboltavöllur, blakvöllur, folfvöllur, leiktæki og svona mætti lengi telja. Uppbyggingin á svæðinu hefur verið mjög mikil undanfarin ár og öll aðstaða er til fyrirmyndar.

Endilega kíkið á Facebook síðu Úlfljótsvatns og sjáið hvaða dagskrá er í boði um næstu helgi.

Útilífsmiðstöðin er staðsett við Úlfljótsvatn í Grímsnes- og Grafningshreppi, skammt frá Ljósafossvirkjun, u.þ.b. 50 km frá Reykjavík. Frá Reykjavík eru tvær megin akstursleiðir. Annars vegar Nesjavallaleið þar sem ekið er yfir Hengilinn og framhjá Nesjavöllum þangað til að komið er að Úlfljótsvatni. Hins vegar er ekið yfir Hellisheiði að Selfossi þar sem haldið er til norðurs í átt að Þingvöllum þangað til að komið er að Ljósafossvirkjun þá er tekin vinstri beygja í átt að Úlfljótsvatni.

Aðstaðan fyrir tjaldsvæðisgesti er mjög góð. Stórar og góðar flatir við vatnið með rafmagnspóstum. Veiðileyfi er innifalið í gistigjaldi og geta gestir því veitt sér ferskan silung á grillið og á meðan geta krakkarnir leigt hjólabáta eða leikið sér í þeim ótal leiktækjum sem eru á svæðinu. Víðs vegar um svæðið eru grill og bekkir sem gestir geta nýtt sér. Í þjónustumiðstöðinni er hægt nálgast allar helstu upplýsingar og kaupa sér helstu nauðsynjar.

Gestir geta alltaf komið í þjónustuhúsið og notað gestaeldhúsið sem þar er ásamt borðum og stólum. Hreinlætis- og snyrtiaðstaða er öll til fyrirmyndar á svæðinu. Á þjónustusvæðinu er nýlegt 10 sturtu sturtuhús sem er með heitu vatni og opið tjaldgestum. Þá er fjöldinn allur af snyrtihúsum um svæðið með vatnssalernum og utanáliggjandi hreinlætisaðstöðu til að þvo upp mataráhöldin. Það er því leikur einn að halda sér og fjölskyldunni hreinum og snyrtilegum jafnvel þó dvalið sé í tjöldum og börnin verða óhrein í ati dagsins.

 

Umgengnisreglur á Fjölskyldutjaldsvæðinu Úlfljótsvatni

 1. Tjaldsvæðið er fjölskyldutjaldsvæði og yngri en 18 ára skulu vera í fylgd með forráðamanni. Tjaldverðir geta þó vísað hverjum sem er af svæðinu ef þeim þykir svo.

  Gestum ber að hafa samband við tjaldvörð og greiða dvalargjöld áður en tjaldað er.

 2. Kyrrð ríkir á tjaldsvæðinu frá 23.30 til 07.00. Ekki má rjúfa næturkyrrð, vera með háreysti eða valda óþarfa hávaða með umferð eða öðru.

 3. Tjaldgestir eru beðnir um að leggja bílum á bílastæði en ekki á tjaldflatir.

 4. Umferð ökutækja á að vera í lágmarki og takmarkast við akstur inn og út af svæðinu. Hámarkshraði ökutækja á svæðinu er 15 km.

 5. Akstur ökutækja um svæðið er ekki leyfður frá 23.00 til 07.00.

 6. Hundar eru aðeins leyfðir á tjaldsvæðinu að því gefnu að þeir séu öllum stundum í ól og að eigendur hirði upp úrgang jafnóðum. Dýr sem valda öðrum gestum ónæði eða ótta verða að fara af svæðinu.

 7. Greiða skal fyrir afnot af rafmagni áður en stungið er í samband. Hver tengill er fyrir eina gistieiningu (tjald/gistihýsi). Hver tengill er 10A. Gætið þess að ofhlaða ekki tengilinn.

 8. Ölvun er bönnuð á tjaldsvæðinu.

 9. Sorp skal sett í þar til gerð ílát, flokkað eftir þeim reglum sem gilda á tjaldsvæðinu.

 10. Hægt er að leita upplýsinga um bátaleigu í þjónustumiðstöð. Notkun báta án leyfis starfsfólks er ekki heimil.

 11. Reykingar eru ekki leyfðar í sameiginlegum rýmum og byggingum (s.s. þjónustumiðstöð, salernis- og sturtuhúsum). Gestir eru beðnir um að reykja ekki þar sem boðið er upp á dagskrá fyrir gesti (s.s. við bátaleigu, klifurturn, á kvöldvökum o.s.frv.).  Sömu reglur gilda um rafrettur og aðrar sígarettur.

 12. Losun ferðasalerna skal aðeins fara fram á þar til gerðum stað. Leitið upplýsinga í þjónustumiðstöð.

 13. Vinnið ekki spjöll á náttúrunni, húsnæði eða búnaði tjaldsvæðisins.

 14. Aðeins er heimilt að kveikja eld í þar til gerðum eldstæðum á svæðinu. Eldiviður fæst í þjónustumiðstöð. Farið varlega með grill og gastæki. Vinsamlega leggið ekki einnota grill beint á jörðina.

 15. Brot á umgengnisreglum getur varðað brottreksti af tjaldsvæðinu.